Flokkur allra lands[karl]manna?

Það er greinilega fleira en kosningakerfið sem kemur manni í opna skjöldu í íslenskri pólitík! Ég verð að viðurkenna að það kom mér ánægjulega á óvart að íhaldsbandalagið rótgróna skyldi brotna með svo dramatískum hætti og flokkur allra landsmanna taka sér Samfylkinguna til slagtogs í nýrri og spennandi ”frjálshyggjustjórn”. Það sem kom mér hins vegar enn meira á óvart var samsetning títtnefndrar Ríkisstjórnar, einkum og sér í lagi hvað varðar hlut kvenna.

Á meðan Ingibjörg er sjálfri sér samkvæm og stillir upp nokkuð sannfærandi hópi ráðherra þar sem konur og karlar sitja við sama borð – og endurspegla þannig samfélagið sjálft - heldur Geir uppi gömlum hefðum og setur fram klassískan gæðingalista, þar sem aðeins ein kona, varaformaður flokksins, kemst upp á dekk. Réttlætingin virðist vera einfaldlega eitthvað á þessa leið ”svona er þetta bara”. Auðvitað er ekki hægt að skipa í ráðherrastóla eingöngu eftir kynferði, pólitískur styrkur og persónulegir hæfileikar þurfa vissulega að vera í öndvegi, en hvernig getur flokkur sem fyrir kosningar selur sig sem nútímalegan jafnréttisflokk og otar mjög frambærilegu kvenfólki í fremstu röð á kosningarglansmyndum leyft sér að skipa ríkisstjórn með aðeins einni konu?

Skilaboðin eru einföld og verulega merkileg, það er aðeins ein kona í Sjálfstæðisflokknum nógu sterk pólitískt (þar sem það liggur ljóst fyrir að margar þeirra eru rúmlega fullfærar faglega) til að fá ráðherrastól! Skilaboðin verða enn merkilegri sé litið til kosninganna sjálfra. Þegar listar Sjálfstæðismanna í kjördæmunum sex eru skoðaðir (http://www.xd.is/xd/2007/kjordaemi/) kemur í ljós að þegar litið er yfir hópinn (tíu efstu sætin) voru konur í meirihluta. Vissulega vekur athygli að aðeins ein kona skyldi ná að skipa 1. sæti lista, auk þess að konur skipuðu yfirleitt neðri sæti listanna (aðeins 7 konur náðu að vera meðal efstu fjögurra) en þrátt fyrir það voru sjálfstæðiskonur áberandi í baráttunni og þeim skartað víða á glansmyndaáróðri fyrir kosningar. Þær skiluðu líka sínu og í raun má færa rök fyrir því að sá óumdeildi sigur sem Sjálfstæðisflokkurinn vann hafi verið sigur kvenna! Í Suðvesturkjördæmi, þar sem flokkurinn vann sinn stærsta sigur og náði inn sex þingmönnum, voru það konur sem leiddu listann og skipuðu bæði baráttusætin. Svipaða sögu sögu má segja frá Norðausturkjördæmi þar sem konur hrepptu tvö af þremur þingsætum flokksins með góðum varnarsigri. Á sama tíma, til samanburðar, gekk fremur illa í Norðvesturkjördæmi þar sem þrjú efstu sætin voru skipuð gömlum gæðingum.Það hlýtur því að hafa verið hálfgert náðarhögg fyrir sjálfstæðiskonur að fá ráðherralista Geirs eins og kalda vatnsgusu í andlitið, eða hvað? Ráðherrastólar hafa tilhneigingu til að endurspegla valdahlutföll innan flokka og ef svo er þá er hlutur kvenna innan Sjálfstæðisflokksins vægast sagt rýr. Nú flokkast ég sem fremur hófsamur femínisti en verð þó að segja að ég á erfitt með að taka glansyfirlýsingar Sjálfstæðismanna um jafnrétti og breiðfylkingu allra þjóðfélagshópa alvarlega. Þrátt fyrir að skipt hafi verið í brúnni og flokkurinn hafi vissulega mun fágaðra og nútímalegra yfirbragð virðist gamla kallaklíkan hafa haldið sínu. Meira að segja andlit flokksins út á við, kvenhetjan sjálf Þorgerður Katrín, virðist ætla að kyngja og brosa sem þægri heimasætu sæmir...svona er þetta bara. Getur verið að allar þessar frábæru konur sem voru svo áberandi fyrir kosningar hafi aðeins verið með upp á punt? Láta metnaðarfullar og sjálfstæðar nútímakonur bjóða sér slíkt? Ég ætla að leyfa mér að vona ekki!       

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband