Færsluflokkur: Bloggar

Verðugir andstæðingar!!

Fyrir mig sýnd lið AC fram á það, svart á hvítu, að ManU átti bara alls ekkert erindi lengra í þessari keppni. Knattspyrna er miskunnarlaus kappleikur og þótt lið skarti krúsidúllum og samba samleik eru mörkin er það eina sem telur. Þetta vita reyndar allir, meira að segja Gattuso, og eru óhræddir að benda á það eftir að hafa hangið á eins marks forskoti heilan hálfleik..en þetta gleymist ótrúlega fljótt þegar menn tapa...þá var það auðvitað neikvæða og leiðinlega liðið sem vann!

Minni á það að þegar Liverpool vann AC um árið vorum við með algera b-leikmenn eins og Traore og Dudek í liðinu og unnum samt! Var sá leikur leiðinlegur? Ég skal reyndar glaður taka undir með Gattuso að það vantar fljótari og flinkari leikmenn í liðið...en það er svo sannarlega ekki vegna þess að Benitez vilji ekki, eða hafi ekki reynt að nálgast þannig menn..Liverpool hefur hingað til einfaldlega ekki verið með sömu milljarðana til leikmannakaupa og Barca (hverjir slóu þá nú aftur út?), ManU, AC og Chelsea..en það breytist kannski í sumar! 

Liverpool vann sanngjarnan og í raun sannfærandi (leikinn sjálfan sanngjarnt og vítakeppnina afgerandi) sigur á Chelsea..engin sirkusbolti en því meira leikið með hjartanu. Ekki hefur liðið farið létta leið í gengum keppnina þannig að ég get ekki betur séð en hér séu tvö bestu liðin eftir.

Dramatíkin verður mikil og fortíðarljóminn bjartur þegar við púlarar mætum AC í Aþenu...og ef eitthvað er að marka fyrri leiki liðanna verður boðið upp á það besta sem knattspyrna hefur upp á að bjóða! AC sér um sömbuna (ef eitthvað er að marka Gattuso) og Liverpool sér um ástríðuna! Ég held að allir sannir knattspyrnuáhugamenn geti farið að hlakka til!

You'll Never Walk Alone!


mbl.is Gattuso: Liverpool lélegra en United
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fornaldarfrægð

Alltaf kemur það mér í opna skjöldu, þrátt fyrir að ég verði ótrúlega oft fyrir því, þegar útlendingar bregðast við hinu fágæta þjóðerni mínu með tilvísunum í glæsta lýðræðishefð Íslendinga. Staðreyndirnar tala reyndar sínu máli, Alþingi var vissulega ein fyrsta ”lýðræðislega” stofnunin sem sögur fara af, Vigdís var vissulega fyrst kvenna til að vera ”lýðræðislega” kjörin forseti og fá lönd í heimi státa af jafn hárri kosningaþátttöku og einmitt Ísland. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hef ég hingað til ekki upplifað mig sem virkan þátttakanda í einhverju sérstaklega lýðræðislegu samfélagi, ástæðurnar eru eftirfarandi.

Til að byrja með finnst mér vald lýðsins alls ekki eins mikið og hugtakið ”lýðræði” gefur til kynna. Fulltrúalýðræði samkvæmt mínum skilningi er í eðli sínu einstaklingskosning, þú veitir þitt umboð til fulltrúa, ekki flokks. Raunveruleikinn er hins vegar sá að atkvæði þitt er gefið lista, ekki einstaklingum, ef þú villt veita þeim sem skipar 3. sæti lista þitt umboð þá þýðir það að þú styður í raun þá sem ofar eru, jafnvel þó þér sé meinilla við þá báða (sem getur hæglega komið fyrir kröfuharða kjósendur þegar breiddin er eins og hún er hérlendis). Svo getur auðveldlega farið að fyrstu tveir fari inn en ekki sá sem þú raunverulega kaust! Mjög ”lýðræðislegt” eða hvað? Listum er síðan stillt upp með ýmsum hætti, ekki alltaf lýðræðislega. Flokkarnir gera jafnvel út á þetta og setja ungt og efnilegt fólk neðarlega á listana, víðsfjarri raunverulegum möguleika á þingsæti. Útstrikanir eru þá eina leiðin sem óflokksbundnum (og þar með hlutlausum) kjósendum býðst til að sýna hug sinn til einstaklinga, yfirleitt með engum árangri.

Íþróttandinn virðist oft allsráðandi í íslensku samfélagi, sem oft er af hinu góða en á varla erindi þegar lýðræðið er annars vegar! Svo virðist sem nokkuð stór hópur kjósenda eigi ”sinn flokk” og styðji hann af mikilli tryggð án vandlegrar, málefnalegrar ígrundunar. Þetta gengur svo langt að til eru þeir sem krota krossin af gömlum vana og styðja ”flokkinn” í blindni án þess að brjóta málefnin til mergjar. Slík tryggð er vægast sagt vafasöm í stjórnkerfi sem byggir á gagnrýnni og málefnalegri ákvarðannatöku kjósenda og er frekar niðurdrepandi fyrir þá sem vilja sjá samræmi milli frammistöðu flokka og sviftinga í fylgi.

Þegar kosningar eru afstaðnar hefst jafnan mikill hildarleikur (undanfarna tvo áratugi oftast á milli D- og B-lista) þar sem barist er um ráherrastóla og málefni. Allir ganga óháðir til kosninga, þrátt fyrir að halda fram sérstöðu sinni og skarta afar metnaðarfullri stefnuskrá fyrir kosningar, og eru jafnan tilbúnir í verulegar málamiðlanir til að komast í stjórn. Til hvers að hafa sérstöðu og stefnuskrá ef þú ert svo allt í einu óháður og tilbúinn til að venda í mikilvægum málum þegar búið er að kjósa?

Störf Alþingis minna oft meira á íþróttakappleik heldur en faglega lýðræðisstarfsemi, menn berjast með sínu liði gegn andstæðingnum og hans málum, hvort sem þeir eru hlintir þeim málum eður ei. Það þykir frétt ef menn ”svíkja lit” og kjósa gegn sínum flokksmönnum, persónuleg sannfæring liðsmanna virðist þá lúta í lægra haldi fyrir liðsheildinni og því sem ”stjórinn” leggur fyrir, þrátt fyrir að sjálfstæði fulltrúa sé ein af grunnforsendum fulltrúalýðræðis.

Bein afleiðing af flokksaganum er sú að stjórnarmeirihlutinn hefur afgerandi vald í skjóli hreins meirihluta, þrátt fyrir það að aðeins rétt rúmlega helmingur kjósenda hafi veitt honum umboð sitt! Hin 49% atkvæðanna falla nánast dauð og ómerk þar sem stjórnarandstaðan má sín lítils gegn sterkum flokksaga meirihlutans, ef allt væri með felldu þyrfti ríkisstjórnin þverpólitískan stuðning við flest umdeild mál, en því fer vissulega fjarri! Fulltrúar lýðsins eiga að vera á þingi af hugsjón og hugsjónarmenn láta ekki flokksaga ráða gerðum sínum...eða hvað?

Málamiðlanir og umræður (málþóf) virðast oft hin mesta meinsemd og hreinlega óþarfar í huga ráðamanna, það er að segja þar til kemur að þinglokum og ”keyra” þarf ótal mál í gegnum þingið í hvelli! Þá er miðlað og samið í öllum skúmaskotum og ýmis mál, stór og smá, sigla seglum þöndum gegnum þingið, oft án umræðu.

Fulltrúarnir virðast líka vera mis opnir fyrir því að hlusta á rödd kjósenda, allt frá því að bókstaflega hundelta þá auðmjúkir síðustu vikurnar fyrir kosningar út í það að láta almenningsálitið sem vind um eyru þjóta þegar umdeild mál skjóta upp kollinum á miðju kjörtímabili. Að sama skapi virðist viðhorf margra fulltrúa til lýðræðisins breytast frá einu tímbili til annars. Fyrir kosningar vilja allir veg og vald lýðsins sem mestan, en þegar kosningafárið er að baki og menn búnir að koma sér þægilega fyrir í ráðherrastól virðist viðhorfið breytast með dularfullum hætti. Ráðamenn bregðast þá skyndilega illa við ef valdboð þeirra er véfengt af stofnunum eða embættismönnum sem lýðræðiskerfinu samkvæmt (s.b. þrískipting valds) ber að veita aðhald, stóra fjölmiðlamálið kemur upp í hugann í þessu samhengi.

Fyrir kemur að hinir lýðkjörnu fulltrúar ganga svo langt að hafa bein afskipti af sjálfstæðum aðhaldsaðilum; skipa dómara í hæstarétt (jafnvel án þess að fara eftir meðmælum Hæstaréttar eða lögum almennt) og leggja niður ”óþekkar” stofnanir eins og Þjóðhasstofnum forðum. Hverjir eru eftirmálarnir? Engir, núll! Þessir sömu menn mæta með tannkremsbros í efstu sætum listanna þremur mánuðum fyrir kosningar, dásama lýðræðið og fá umboð inn á þing, beinustu leið...er nema vona að leikreglur lýðræðisins gildi aðeins í nokkra mánuði á fjögurra ára fresti? Það ætti því ekki að koma á óvart að þegar ég hitti vel lesinn útlending sem vill ræða við mig um undraheima íslenskrar lýðræðishefðar þá svara ég að bragði: ”How do you like Bjork?” 

Verðugur er verkamaðurinn launa sinna!

Alltaf æsispennandi fyrir sauðsvartan almúgamann að fylgjast með ríkidæmi hinnar nýju kynslóðar íslenskra víkinga vaxa með ógnarhraða í útgarði. Björgólfur ríki kominn í hóp stóru strákanna, þegar búinn að skjóta kempum á borð við Donald Trump og Spielberg ref fyrir rass og nálgast óðum George Lucas! Hann á meira að segja úrvalsdeildarlið! Væri reyndar ákveðið skipbrot ef West Ham myndi nú falla niður í aðra deild, ekki það að 263 milljarðar dugi ekki til að kaupa nýtt lið!

Það sem ég skil ekki er þetta: óskaplega hlýtur maðurinn að vinna mikið! Gróðinn litlir 65 milljarðar (já, 65.000 milljónir!! 180 milljónir á dag!) á síðasta ári! Vantar ekki yfirtíðina á þeim bænum! Hefur samt tíma til að mæta á Upton Park! Þarna fer greinilega garpur sem gefur Gunnari á Hlíðarenda ekkert eftir, þótt hanni stökkvi ef til vill ekki hæð sína í fullum herklæðum!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband